Umhverfi og loftslag

Stór mynd)

Umhverfisstefna

Húsasmiðjan hefur skuldbundið sig til markvissra aðgerða í umhverfis- og loftslagsmálum með það að markmiði að lágmarka áhrif starfseminnar á umhverfið, og auðvelda vistvænar framkvæmdir.

• Húsasmiðjan leitar stöðugt leiða til að draga úr orkunotkun, minnka úrgang og koma þeim úrgangi sem fellur til í endurvinnsluferla, ásamt því að vinna samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda um umhverfisvernd á Íslandi.

• Rekstrarákvarðanir eru teknar með það að leiðarljósi að nýta auðlindir skynsamlega og skapa heilbrigt og gefandi starfsumhverfi.

• Efla og auka samstarf við birgja sem huga markvisst að umhverfi sínu, eru vottaðir og framleiða vörur með umhverfisvænum hætti. Markmið Húsasmiðjunnar er að geta boðið upp á umhverfisvænni kosti í öllum helstu vöruflokkum.

• Vinna markvisst að fræðslu og þjálfun starfsmanna til að auka þekkingu á umhverfismálum ásamt því að deila þeirri reynslu með viðskiptavinum okkur.

• Hvetja alla hagaðila til virðingar fyrir umhverfinu og að þeir setji sér raunhæf mælanleg markmið í því skyni að draga úr umhverfisáhrifum sínum.

Áhætta fyrir umhverfið

Í starfsemi Húsasmiðjunnar eru vissir þættir þar sem nokkur hætta er á miklum umhverfisáhrifum. Húsasmiðjan er hins vegar í stöðu til að minnka þá þætti með því að vinna markvisst að minnkun kolefnisspors fyrirtækisins, ásamt því að beina viðskiptum að ábyrgum birgjum. Með því að stefna að því að verða leiðandi fyrirtæki á markaði í umhverfisvænni vörum sem uppfylla hinu ströngu staðla umhverfisvottana bygginga, opnast ýmsir möguleikar fyrir Húsasmiðjuna. Með því sýnir fyrirtækið bæði ábyrgð varðandi lágmörkun umhverfisáhrifa og ýtir undir byggingu sjálfbærra bygginga á Íslandi. 

Grænar vörur

Til að auðvelda aðgang að umhverfisvottuðum vörum og vörum sem hafa verið teknar út eða vottaðar á annan hátt af þriðja aðila, leitast Húsasmiðjan við að merkja þær sérstaklega undir eigin skilgreiningu sem „grænar vörur“. Þar er ýmist um að ræða vörur sem eru sérstaklega vottaðar með viðurkenndum vottunum s.s. Svansvottun, Evrópublóminu og Bláa englinum. Einnig vörur sem hafa verið samþykktar til notkunar í svansvottuðum verkefnum og vörur sem standast hinar ýmsu kröfur sem settar eru í BREEAM vottun. Þær vörur sem falla undir „grænar vörur“ eru vörur sem staðfestar hafa verið af þriðja aðila að innihaldi minna magn skaðlegra efna en hliðstæðar vörur eða hafa sannarlega fallið undir og uppfyllt kröfur umhverfisvottunarkerfa. Á síðasta ári hefur heildarfjöldi þeirra vara sem falla undir skilgreininguna „grænar vörur“ hjá Húsasmiðjunni aukist úr um 2.500 í um 3.700 eða um tæplega 50%. Húsasmiðjan vinnur jafnframt stöðugt í því að auka hlutfall „grænna vara“ í vöruúrvali sínu, og að bæta kynningu „grænna vara“ í verslunum og vefverslun, í því skyni að auðvelda viðskiptavinum og starfsmönnum að skilja muninn á mismunandi vottunum.

Umhverfisvottuð verkefni

Húsasmiðjan hefur tekið þátt í fjölda verkefna þar sem ýmist er vottað með Svansvottun eða BREEAM-vottun. Ber þar meðal annars að nefna nýjan miðbæ á Selfossi sem enn er í byggingu, endurgerð eldra húss við Þingholtsstræti í Svansvottuðum endurbótum á eldra húsnæði, og sölu og ráðgjöf á vörum til byggingar Kársnesskóla sem verður Svansvottaður.

Hin vottunin sem er algengust á Íslandi er BREEAM vottun og er ljóst að áhugi á BREEAM vottuðu byggingarferli er sífellt að aukast. Þar með myndast þörf á að útvega gögn sem sýna fram á að vörurnar standist þær kröfur sem settar eru. Það er nauðsynlegt til að fá stig í BREEAM vottun, sem telja til lokaeinkunnar. Markvisst er verið að fjölga þeim vörum sem hafa nauðsynlegar staðfestingar til að standast kröfur BREEAM.

Húsasmiðjan er í mjög áhugaverðu samstarfi um endurgerð á raðhúsi á Seltjarnarnesi. Áætlað er í samstarfi við eiganda hússins sem hefur doktorsgráðu í byggingarverkfræði, að reikna út og minnka kolefnisspor verkefnisins með því að leggja áherslu á kolefnisspor byggingarvaranna, ásamt því að byggingarvörurnar séu vottaðar og hafi sem minnst umhverfisáhrif.

Starfsmaður Húsasmiðjunnar hefur sótt nám í BRE academy og er búinn að vinna sér inn réttindi sem BREEAM AP og BREEAM Associate, til að geta betur ráðlagt og leiðbeint viðskiptavinum og starfsmönnum Húsasmiðjunnar.

Stafræn þróun

Við vinnum stöðugt að innleiðingu stafrænnar þróunnar og setjum viðskiptavininn í fyrsta sæti þegar kemur að stafrænni þjónustu, meðal
annars að auðvelda viðskiptavinum fyrirtækisins að nálgast nauðsynleg gögn í gegnum viðskiptareikninga sína. Nær það 
til gagna sem tengjast umhverfisvottunum ásamt gögnum sem nauðsynleg eru samkvæmt lögum og reglugerðum.

Á síðasta ári hefur heildartala þeirra vara sem falla undir skilgreininguna”grænar vörur” hjá Húsasmiðjunni aukis um 2.500 í um 3.700 eða um tæplega 50%

Umhverfis- og samfélagsmál

Á árinu 2021 var ráðinn til starfa verkefnastjóri umhverfis- og samfélagsmála, sem hefur það hlutverk að sjá um og leiða umhverfisvegferð fyrirtækisins, bæði varðandi vöruúrval og ráðgjöf til viðskiptavina og starfsmanna, svo og til að marka stefnu fyrirtækisins í umhverfismálum, og hvernig sé hægt að ná yfirlýstum markmiðum fyrirtækisins í að lágmarka umhverfisáhrif.

Losun gróðurhúsategunda

Yfirlýst markmið Húsasmiðjunnar sem hluta af Bygma keðjunni, er að minnka kolefnislosun fyrirtækisins um 70% fyrir árið 2030.

Verslanirnar og minnkun loftslags- og umhverfisáhrifa

Fagmannaverslun Húsasmiðjunnar í Kjalarvogi, þar sem aðalskrifstofur fyrirtækisins eru einnig, var opnuð árið 2017 en þar er að finna eina umhverfisvænstu timbursölu landsins. Timbri og öðru byggingarefni sem þar er selt, er skipað upp á hafnarbakka rétt við verslunina og krefst því ekki milliflutnings fyrir sölu. Ljóst er að þetta tryggir minni kolefnislosun en ella. Við byggingu fagmannaverslunarinnar var mikil áhersla lögð á orkusparnað. T.d. er allt gler í byggingunum þrefalt orkusparandi gler, öll ljós eru LED, og stjórnunarkerfi frá Ískraft lágmarkar orkunotkun í byggingunni. Einnig eru uppsettar 4 hleðslustöðvar fyrir viðskiptavini og starfsmenn hjá versluninni.

Í nýrri verslun Húsasmiðjunnar á Akureyri sem opnaði á fyrsta fjórðungi 2022 var horft til sömu orkusparandi þátta og við byggingu húsnæðisins í Kjalarvogi. Einnig voru settar upp 4 hleðslustöðvar með tveimur tenglum í hverri, þar af ein hraðhleðslustöð, við nýja verslun á Akureyri. 

Húsasmiðjan mun setja upp hleðslustöðvar á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins á næstu árum. Árið 2022 mun Húsasmiðjan hefja byggingu nýrrar verslunar fyrirtækisins á Selfossi þar sem gengið verður enn lengra. Þar verður í ferlinu jafnframt lögð sérstök áhersla á notkun umhverfisvænna byggingarvara, ásamt því að notast við ýmsa þætti umhverfisvottana.

Húsasmiðjan er jafnframt einn stærsti blóma-, trjá- og plöntusali landsins, og rekur sjö útibú Blómavals í tengslum við verslanir Húsasmiðjunnar. Stór hluti plantnanna er ræktaður innanlands. Má telja þetta jákvætt framlag til minnkunar kolefnislosunar og aukinna loftgæða.

Fyrsta uppgerða húsið á Íslandi sem hlýtur Svansvottun

Í júní 2021 kláruðust endurbætur á Þingholtsstræti 25 og var það fyrsta uppgerða hús á Íslandi sem hlýtur Svansvottun. Endurbæturnar voru unnar í samstarfi við Húsasmiðjuna sem útvegaði nánast allt byggingarefni í þetta viðamikla verkefni, en húsið var illa farið og þurfti miklar endurbætur, bæði innan-og utanhúss.

Vörulisti fyrir Svansvottuð hús

Húsasmiðjan hefur gefið út út lista yfir leyfðar vörur í Svansvottaðar byggingar, sem gefur innsýn inn í það mikla úrval sem Húsasmiðjan býður upp á. Listinn er að stórum hluta til afrakstur samstarfsverkefnisins við Breytingu ehf. um endurbæturnar á Þingholtsstræti 35. Listinn er í rafrænu formi og aðgengilegur á heimasíðu Húsasmiðjunnar husa.is.

Húsasmiðjan hefur minnkað kolefnislosun tækjaflota fyrirtækisins með því að færa sig yfir í umhverfisvænni orkugjafa

Eftirlit með áhrifum á loftslagið

Um árabil hefur úrgangur verið flokkaður hjá Húsasmiðjunni og notast hefur verið við lausn Klappa, m.a. til að fylgjast með hlutfalli flokkaðs og óflokkaðs úrgangs sem verður til í fyrirtækinu. Nú hefur Húsasmiðjan sett sér það markmið að árið 2025 verði hlutfall flokkaðs úrgangs sem fari frá fyrirtækinu a.m.k. 90%. Á árinu 2022 mun verða farið í allsherjar skoðun á úrgangsmálum fyrirtækisins með það að leiðarljósi að ná því markmiði. Það er m.a. gert með samstarfi við sértæka endurvinnsluaðila sem taka við hreinum flokkuðum úrgangsstraumum. Einnig verður skoðað hvernig hægt verði að lágmarka það magn úrgangs sem verður til í fyrirtækinu.

Rafrænn rekstur og sjálfvirknivæðing

Meðal þeirra aðgerða sem farið hefur verið í til að minnka magn úrgangs, eru útsendingar rafrænna reikninga ásamt því að fara fram á rafræna reikninga frá vöru- og þjónustubirgjum. Reikningar vegna almenns rekstrar Húsasmiðjunnar eru 93% rafrænt mótteknir. Þetta hefur minnkað pappírsflæði og aukið framleiðni starfsfólks. Rafrænir reikningar vegna innkaupa hafa aukist úr 41% árið 2020 í 72% árið 2021. Á árinu 2021 gaf Húsasmiðjan jafnframt út app eða smáforrit Húsasmiðjunnar sem auðveldar viðskiptavinum rafræn viðskipti í verslunum fyrirtækisins. Með appinu eru einnig allir reikningar rafrænir sem einnig sparar útprentun á pappír.