Heimsmarkmiðin

Stór mynd)

Húsasmiðjan og Bygma hafa greint sjö markmið til að vinna sérstaklega með.

Húsasmiðjan og Bygma samstæðan hafa út frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna greint sjö markmið til að vinna sérstaklega með. Þau markmið, ásamt útskýringum á tengingum sem Húsasmiðjan vinnur eftir, eru eftirfarandi:

Árlega er starfsfólki Húsasmiðjunnar boðið upp á bólusetningar gegn inflúensu. Starfsmönnum standa einnig til boða íþróttastyrkur og samgöngustyrkur. Við hvetjum einnig starfsmenn til heilsueflandi verkefna eins og Lífshlaupið og Hjólað í vinnuna. Við höldum heilsudaga og bjóðum reglulega upp á fyrirlestra tengda heilsu. Í verslunum Húsasmiðjunnar eru ekki seldar vímugjafar á borð við tóbak og áfengi.

Nauðsynlegt er að viðhalda hæfni og færni með sífelldri endurnýjun á þekkingu. Í Húsasmiðjuskólanum sem hefur verið starfræktur síðan 1998, er boðið upp á fjölda námskeiða og fræðslufunda á hverju ári, en stærstur hluti þeirra er kenndur af öðrum starfsmönnum Húsasmiðjunnar, bæði í staðarnámi sem og á rafrænu formi. Þannig miðlum við sérþekkingu og heildin dafnar.


Fræðslan er fjölbreytt og er starfsmönnum skylt að sækja ákveðin námskeið starfs síns vegna, en einnig er boðið upp á valmámskeið sem snúa að því að efla okkur bæði faglega og persónulega. Húsasmiðjan styður einnig við starfsfólk sem sækir sér frekari menntun á framhalds- eða háskólastigi. Húsasmiðjan hefur einnig tekið virkan þátt í uppbyggingu á námi sem heitir Fagnám í verslun og þjónustu. Það var unnið í samvinnu við Verzlunarskóla Íslands, Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks, og Lyfju og Samkaup. Starfsfólki stendur til boða að fara í raunfærnimat hjá Mími þar sem kunnátta og hæfni hvers og eins er metin til eininga á móti kenndum áföngum. Þannig fá einstaklingar með starfsreynslu og hæfni slíkt metið til eininga sem meta má til stúdentsprófs. Markmið námsins, er meðal annars að nemendur auki þekkingu sína og færni á vinnustað, þjálfist í að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu, og geti stýrt verkefnum í verslun í samræmi við skipulag og áætlanir.

Jafnrétti skiptir okkur miklu máli og höfum við sett fram skýra stefnu í jafnréttismálum sem nær til alls starfsfólks. Stefnan sem byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, miðar að því að stuðla að jafnri stöðu starfsfólks innan fyrirtækisins og jöfnum tækifærum einstaklinga á sem flestum sviðum. Húsasmiðjan starfar einnig samkvæmt jafnlaunastefnu og leggur áherslu á að vera vinnustaður þar sem einstaklingurinn er metinn að verðleikum og að greidd séu jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á að jafnlaunakerfið sé í samræmi við jafnlaunastaðal ÍST85:2012. Fyrirtækið hlaut jafnlaunavottun árið 2018- 2021 og var sú vottun endurnýjuð fyrir árin 2022-2025. Í vinnuumhverfi Húsasmiðjunnar eru einelti, kynbundið áreiti, kynferðisleg áreitni og ofbeldi ekki liðin.

Húsasmiðjan kaupir orku af Orkusölunni sem ábyrgist uppruna þeirrar endurnýjanlegu orku sem notuð er af Húsasmiðjunni. Húsasmiðjan vinnur stöðugt að því að draga úr orkunotkun fyrirtækisins með markvissum aðgerðum í orkufrekustu geirum starfseminnar.

Hjá Húsasmiðjunni vinna alls rúmlega 500 starfsmenn. Þar af eru um 40% 30 ára eða yngri. Húsasmiðjan leggur einnig sitt af mörkum til að styðja við einstaklinga með skerta starfsgetu í samvinnu við Vinnumálastofnun.

Húsasmiðjan hvetur þá birgja sem eru í samstarfi við fyrirtækið, að skrá sjálfbærar vörur sínar, svo þær upplýsingar séu aðgengilegar öllum aðilum byggingargeirans og öðrum sem vilja byggja með sjálfbærum hætti. Húsasmiðjan vinnur einnig stöðugt í að minnka úrgang, auka endurvinnslu og endurnýtingu til að draga úr sóun. Húsasmiðjan hefur unnið í því að innleiða sjálfbæra þróun innan fyrirtækisins og gefur fyrirtækið árlega út skýrslu þar sem fjallað er um og sýnt er fram á þessa þróun.

Húsasmiðjan stuðlar að sjálfbærni innan byggingargeirans á Íslandi. Nánast allt timbur sem Húsasmiðjan selur er sjálfbærnivottað með annað hvort FSC eða PEFC vottun, sem þýðir að tekið sé tillit til fólks, dýralífs og plöntulífs í skógræktinni. Jafnframt leggur Húsasmiðjan sig fram við að bjóða viðskiptavinum upp á vörur, þar sem sýnt er fram á, að þær vörur hafi minni umhverfisáhrif en sambærilegar vörur, sem ekki bera vottun eða aðra staðfestingu á minnkun umhverfisáhrifa.