Gildi og stefnur
Gildin okkar
Kjarnagildi fyrirtækisins eru öflug liðsheild sem hefur gildi fyrirtækisins að leiðarljósi. Kjarnagildin eru rík þjónustulund, áreiðanleiki og sérþekking á vörum, ásamt faglegri ráðgjöf.
Þjónustuloforðin okkar byggja á gildum Húsasmiðjunnar
Þjónustulund
Þekking
Áreiðanleiki
Snyrtimennska
Stefna félagsins um
mannréttindamál
Til þess að gera Húsasmiðjuna að eftirsóknarverðum vinnustað þar sem jafnrétti og jafnræði ríkir, hefur Húsasmiðjan sett fram jafnréttis- og aðgerðaáætlun sem nær til allra starfsmanna. Jafnréttisáætlun Húsasmiðjunnar miðar að því að tryggja jafnan rétt til launa, framgangs í starfi, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og tryggja að einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi séu ekki liðin á vinnustaðnum. Sett eru fram markmið í áætluninni þar sem hafa skal jafnræði kynja sérstaklega í huga varðandi laus störf, starfsþróun og framgang í starfi, starfsþjálfun og kynjaskiptingu í stjórnunarstöðum. Einnig skal horft til jafnræðis kynja varðandi möguleika á samræmingu fjölskyldulífs og starfs. Að endingu eru skýr markmið og aðgerðaráætlun sett fram um öryggi á vinnustað, þar sem horft er sérstaklega til þátta eins og eineltis og kynferðislegrar áreitni.
Jafnlaunastefna
Húsasmiðjan leggur áherslu á að vera vinnustaður þar sem hver einstaklingur er metinn að verðleikum, og greidd skuli jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf, óháð kyni, uppruna eða öðrum ómálefnalegum þáttum. Húsasmiðjan tryggir jöfn tækifæri til starfsþróunar og fræðslu.
Jafnlaunakerfið nær til alls starfsfólks Húsasmiðjunnar og er órjúfanlegur hluti af launastefnu þess. Framkvæmdastjórn Húsasmiðjunnar ber ábyrgð á jafnlaunakerfinu, innleiðingu, skjalfestingu og viðhaldi í samræmi við Jafnlaunastaðal ÍST85: 2012. Framkvæmdastjórn skuldbindur sig til að viðhalda stöðugum umbótum og gera áætlun um reglulegt eftirlit með virkni jafnlaunakerfisins og bregðast við, þegar það á við.
Tryggt er að jafnlaunakerfið sé í samræmi við lagalegar kröfur nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnlaunastefnan er kynnt starfsmönnum og gerð aðgengileg almenningi á heimasíðu Húsasmiðjunnar.
Sporna við spillingu og mútumálum
Húsasmiðjan hefur skýra stefnu varðandi spillingar- og mútumál. Stefnan hefur verið kynnt starfsmönnum Húsasmiðjunnar og leiðbeiningar varðandi hana eru aðgengilegar í gæðahandbók félagsins. Þá hafa siðareglur verið innleiddar fyrir vörustjóra. Reglur um móttöku reiðufjár hafa einnig verið innleiddar.
Áhættustýring og innra eftirlit
Stjórn og stjórnendur félagsins hafa komið á virkri áhættustýringu og innra eftirliti. Í gæðahandbók félagsins eru að finna þær verklagsreglur sem starfsmenn skulu fylgja í störfum sínum, og gætt er að aðgreiningu starfa.
Innra eftirlit
Framkvæmdastjórn félagsins og rekstrarstjórar verslana hafa daglegt eftirlit með veltu, afsláttum og framlegð, og bera saman við áætlun ársins og síðasta ár. Framkvæmdastjórn rýnir skýrslur yfir lykilmælikvarða í rekstri á vikulegum fundum og fer yfir brýn verkefni. Þá fylgjast vörustjórar með verðútreikningi endursöluvara og birgðastöðu. Reglulega er farið yfir helstu stærðir í rekstri og fjárhagsstöðu félagsins og þær greindar, m.a. með samanburði við áætlanir og síðasta ár, sem er m.a. hluti af áhættugreiningu og innra eftirliti við gerð reikningsskila. Stjórnarfundir eru haldnir með reglulegu millibili þar sem rekstur félagsins er yfirfarinn.
Húsasmiðjan kaupir lögboðnar tryggingar ásamt því að tryggja sig gagnvart stærri tjónum svo sem altjóni á vörum í flutningi, kaskó tryggingar á stærri vélum og tækjum, rekstrarstöðvunartryggingu og fleira. Framkvæmdastjórn skipar vinnuhópa sem stýra framþróun félagsins með því markmiði að tryggja betri rekstur, auka gæði og bæta stöðugt verkferla og öryggi.
Útlánaáhætta
Úttektarheimildum stærri viðskiptavina er stýrt af lánanefnd félagsins sem hittist vikulega og metur óskir um heimildir að teknu tilliti til ábyrgða, ásamt því að fara yfir útlánaáhættu hæstu krafna. Fjármálastjóri, forstöðumaður viðskiptareikninga, ásamt lögfræðingi félagsins, meta útlánasafnið í daglegum rekstri og ákveða viðeigandi innheimtuaðgerðir, ásamt því að óska eftir viðeigandi ábyrgðum og stýra smærri heimildum. Sjálfvirkar heimildir til viðskiptavina byggja á lánshæfismati Creditinfo. Lánareglur félagsins eru skráðar í lánahandbók og samþykktar af lánanefnd. Húsasmiðjan rekur vöruhús gagna og beitir Power BI greiningartólum samhliða því, við birtingu tímanlegra lykilupplýsinga rekstrarþátta. Með þessum leiðum er hægt að skoða fjárhags-, birgða-, sölu-, flutningspantana, innkaupa- og kassauppgjörsgreiningar.
Gengisáhætta
Innkaup Húsasmiðjunnar eru 65,6% í EUR, 20,7% í DKK og minna í öðrum myntum. Ekki hefur þótt ástæða til að ráðast í gerð framvirkra samninga til að ná fram hagkvæmari samsetningu, þar sem ávinningurinn af slíku er óverulegur. Húsasmiðjan ver sig gegn gengissveiflum með því að hækka og lækka verð vara til samræmis.
Lögfræðileg áhætta
Húsasmiðjan ber ábyrgð á seldum vörum samkvæmt lögum um sölu á lausafé nr. 50/2000, og öðrum lögum og reglum sem eiga við um starfsemi félagsins. Þá ber félagið einnig ábyrgð á háttsemi starfsmanna sinna. Ákveðin áhætta er fólgin í starfseminni, sem m.a. felur í sér að ábyrgjast vörur frá framleiðendum hérlendis og erlendis. Slíkar bótakröfur geta numið tugum milljóna króna. Náist ekki að leysa ágreining sem upp kemur vegna bótakrafna, er látið reyna á slíka ábyrgð fyrir dómstólum. Starfsfólk Húsasmiðjunnar býr yfir mikilli reynslu í meðhöndlun slíkra mála, sem í flestum tilvikum næst að leysa án aðkomu dómstóla.
Önnur áhætta
Vaxandi ógn í netheimum hefur verið í brennidepli og hefur viðbragðsáætlun verið útfærð hjá Húsasmiðjunni, ásamt áhættumati. Gert er ráð fyrir áframhaldandi vinnu í tengslum við upplýsingaöryggi á árinu 2022.