Samfélagið

Stór mynd)

Mannauður

Mannauður Húsasmiðjunnar er ein helsta auðlind fyrirtækisins og um leið lykilþáttur í að ná góðum rekstrarárangri. Við fögnum fjölbreytileikanum og trúum því að lífið sé stöðugur lærdómur og um leið tækifæri til að miðla. Því er mikilvægt að samsetning starfsfólks okkar endurspegli viðskiptavini okkar eins og hægt er. Hjá Húsasmiðjunni, Blómaval og Ískraft starfar fjölbreyttur hópur rúmlega 500 starfsmanna. Við bjóðum alla velkomna óháð kyni, kynhneigð, kynþætti eða öðrum þáttum. Við bjóðum fólki á “besta aldri” sérstaklega velkomið til okkar, því við kunnum að meta margs konar reynslu, þekkingu eða menntun, og einnig almenna lífsreynslu. Það er skýrt markmið okkar að vera eftirsóttur vinnustaður sem býður upp jákvæða menningu og sterka liðsheild, þar sem jafnrétti ríkir og jöfn tækifæri eru til menntunar og starfsþróunar. Vinnuumhverfið sé heilsusamlegt og við getum þannig stuðlað að því að starfsfólki líði vel og blómstri í sínum störfum. Leitast er við að upplýsingaflæði sé gott og að allir starfsmenn séu meðvitaðir um hlutverk sitt og hafi gildi fyrirtækisins, áreiðanleika, þjónustulund og þekkingu að leiðarljósi, við dagleg störf og ákvarðanatöku.

Jafnrétti

Jafnrétti skiptir okkur miklu máli og höfum við sett fram skýra stefnu í jafnréttismálum sem nær til alls starfsfólks. Stefnan sem byggir á lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, miðar að því að stuðla að jafnri stöðu starfsfólks innan fyrirtækisins og jöfnum tækifærum einstaklinga á sem flestum sviðum. Einnig miðar stefnan að því að starfsfólki sé ekki mismunað vegna uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, skoðana, kyns, kynhneigðar, kynvitundar, aldurs, fötlunar, líkamsgerðar eða annarrar stöðu. Við trúum því að í fjölbreytileikanum liggi tækifæri.

Unnið er að stöðugum umbótum og er stefnan yfirfarin árlega af framkvæmdastjórn ásamt jafnréttisáætlun og markmiðum.

Við setjum okkar markmið um að:

• Við ákvörðun launa skal gæta þess að ekki sé mismunað vegna kyns eða annarra þátta. Starfsmönnum skal greiða jöfn laun og sömu kjör fyrir sömu störf eða jafn verðmæt störf.
• Jafn aðgangur sé að störfum og skulu jafnréttissjónarmið verða metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar og ráðningar.
• Jafn aðgangur skal vera að framgangi í starfi, starfsþjálfun, endur- og símenntun, óháð kyni eða öðrum þáttum.
• Miða skal að því að starfsfólki sé kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu eins og við verður komið. Taka skal tillit til bæði fjölskyldu aðstæðna starfsfólks og þarfa fyrirtækisins.
• Einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni eða ofbeldi er ekki liðið á vinnustaðnum.

Jafnrétti skiptir okkur miklu máli og höfum við sett okkur skýra stefnu í jafnréttismálum sem nær til alls starfsfólks.

Kynjahlutfall og aldur

Hjá Húsasmiðjunni störfuðu að meðaltali 546 einstaklingar árið 2021 í 402 stöðugildum. Stöðugt er unnið að því að jafna kynjahlutfall starfsfólks, bæði í stjórnunarstöðum og í heild. Hlutur kvenna hefur aukist síðustu ár. Við setjum okkur markmið um að halda áfram að jafna kynjahlutfallið, bæði í stjórnunarstöðum og í heild.

Aldursbil starfsfólks er nokkuð jafnt þó er stærsti hópurinn séu karlmenn á aldrinum 20-30 ára og hefur svo verið í fjölda ára. Þetta teljum við að sé mjög jákvætt, þeir yngri læra af þeim eldri og öfugt sem er mjög mikilvægt. Með blöndun kynslóða verður þekkingaryfirfærslan í báðar áttir.

Starfsaldur

Meðalstarfsaldur er 6 ár og hefur tæplega 40% starfsfólks unnið hjá okkur lengur en 5 ár og 20% í meira en 10 ár.

Starfsmannavelta

Árið 2021 réðum við 200 starfsmenn, 60% í hlutastörf og 40% í fastráðningu. Af þeim voru 26% konur og 74% karlar. Sumir voru endurráðnir og aðrir voru nýir starfsmenn. Konur voru 25% af þeim sem sóttu um störf hjá okkur árið 2021. Starfsmannavelta hefur lækkað síðustu ár, bæði hjá starfsfólki í fullu starfi og í hlutastarfi.

Atvinna með stuðningi

Húsasmiðjan leggur sitt af mörkum við að styðja við þá sem hafa skerta starfsgetu vegna andlegrar og/eða líkamlegrar fötlunar með því að finna þeim starf við hæfi innan Húsasmiðjunnar. Það er gert í samvinnu við Vinnumálastofnun. Við teljum þetta vera þroskandi verkefni fyrir alla hlutaðeigandi. Árið 2021 voru 8 einstaklingar með skerta starfsgetu í starfi hjá Húsasmiðjunni.

Jafnlaunavottun

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Það skiptir miklu máli að allir sitji við sama borð þegar kemur að launaákvörðunum og er jafnlaunakerfi ætlað að tryggja að starfsfólki sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf, sé ekki mismunað í launum. Það er mikilvægt fyrir starfsfólk Húsasmiðjunnar að vita að til staðar sé stjórnkerfi sem tryggir að launaákvarðanir byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér mismunun vegna kyns eða annarra ómálefnalegra þátta. Húsasmiðjan fékk fyrst jafnlaunavottun árið 2019 og hefur nú farið í gegnum endurvottun sem gildir til 2025. Húsasmiðjan hefur sett sér það markmið að kynbundinn launamismunur sé undir 2%, en vinnur ötullega að því að þessi munur verði að lokum enginn eða 0%. Launamunur fyrir árið 2021 var 1,3% karlmönnum í hag.

Það er mikilvægt fyrir starfsfólk Húsasmiðjunnar að vita að til staðar er stjórnkerfi sem tryggi að launaákvarðanir byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér mismunun vegna kyns eða annarra ómálefnalegra þátta.

Fræðsla og menntun

Við teljum að menntun og þekking sé ein af mikilvægustu forsendum þess að starfsfólki líði vel í starfi. Það er nauðsynlegt að viðhalda hæfni og færni með sífelldri endurnýjun á þekkingu. Því er lögð rík áhersla á að efla og þróa faglega og persónulega hæfni og þekkingu starfsfólks. Í Húsasmiðjuskólanum sem hefur verið starfræktur síðan 1998, er boðið upp á fjölda námskeiða og fræðslufunda á hverju ári. Stærstur hluti þeirra er kenndur af öðrum starfsmönnum Húsasmiðjunnar, bæði í staðarnámi sem og á rafrænu formi. Þannig miðlum við sérþekkingu og heildin dafnar.

Fræðslan er fjölbreytt. Starfsmönnum er skylt að sækja ákveðin námskeið starfs síns vegna, en einnig er boðið upp á valnámskeið sem ýmist snúa að því að efla okkur, bæði faglega eða persónulega. Húsasmiðjan styður einnig við starfsfólk sem sækir sér frekari menntun á framhalds- eða háskólastigi.

Stuðst er við fjórar megin áherslur fræðslu;

• Vörur/umhverfi

• Þjónusta

• Tækni/kerfi

• Samskipti/leiðtogafærni

Metaðsókn í Húsasmiðjuskólanum

Árið 2021 var metaðsókn í Húsasmiðjuskólann, en hún dróst aðeins saman árið áður vegna COVID. Við lærðum mikið af COVID og höfum verið að þróa aðgengi til náms í takt við þann lærdóm og tíðarandann, t.d. hraðri stafrænni þróun á vinnumarkaði. Við teljum að aukin fjölbreytni í leiðum til náms og uppsöfnuð þörf, skýri að stórum hluta aukna aðsókn starfsfólks í nám Húsasmiðjuskólans.

Við teljum að menntun og þekking sé ein af mikilvægustu forsendum þess að starfsfólki líði vel í starfi.

Árið 2021 var metaðsókn í Húsasmiðjuskólann

Fagnám í verslun

Húsasmiðjan hefur einnig tekið virkan þátt í uppbyggingu á námi sem heitir Fagnám í verslun og þjónustu. Það var unnið í samvinnu við Verzlunarskóla Íslands, Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks, Lyfju og Samkaup. Starfsfólki stendur til boða að fara í raunfærnimat hjá Mími þar sem kunnátta og hæfni hvers og eins er metin til eininga á móti kenndum áföngum. Þannig fá einstaklingar með starfsreynslu og hæfni slíkt metið til eininga til stúdentsprófs. Markmið námsins, er meðal annars að nemendur auki þekkingu sína og færni á vinnustað, þjálfist í að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og geti stýrt verkefnum í verslun í samræmi við skipulag og áætlanir.

Starfsþróun

Fjöldi starfsfólks hefur unnið hjá fyrirtækinu í langan tíma og unnið við hin ýmsu störf. Það býr þar af leiðandi yfir gríðarlega góðri þekkingu sem er dýrmætt fyrir samstarfsfólk og fyrirtækið. Störfin eru fjölbreytt og tækifæri til starfsþróunar víða. Hægt er að fara ýmsar leiðir til að þróast í starfi, t.d. axla meiri ábyrgð í eigin starfi, færast til í starfi innan starfsstöðvar eða á milli starfsstöðva ásamt því að færast í hærri stöður. Jón Örn var 19 ára gamall þegar hann hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1975 og hóf hann störf hjá stofnanda Húsasmiðjunnar, Snorra Halldórssyni og lærði hjá honum húsasmíði. Á þessum árum framleiddi Húsasmiðjan og seldi einingahús og rak stórt og öflugt timburverkstæði. Við það starfaði hann fyrstu árin m.a. sem verkstjóri. Næstu árin starfaði hann meðal annars sem deildarstjóri, við innkaup, sem rekstrarstjóri og í dag er hann vörustjóri á verkfærum, festingum o.fl. „Það besta við að starfa í Húsasmiðjunni er ótrúleg fjölbreytni í störfum og verkefnum. Ég væri ekki búinn að vera svona lengi nema af því að ég hef tekist á við fjölbreytt og krefjandi verkefni. Mikilvægast er að vera samviskusamur, áhugasamur og sýna mjög mikið frumkvæði”

Heilsa og öryggi

Við leggjum áherslu á að gott sé að vinna hjá Húsasmiðjunni. Reglulegar vinnustaðagreiningar eru framkvæmdar með það að markmiði að vinna að stöðugum umbótum í vinnuumhverfi okkar, og eru þessar kannanir mikilvægar vísbendingar um líðan og viðhorf starfsfólks til vinnustaðarins. Unnið er markvisst úr niðurstöðum og hefur starfsánægja aukist síðustu ár, að undanskildu árinu 2020, en þá lækkaði starfsánægja lítillega.

Heilsan

Stór hluti af vellíðan og heilbrigðu starfsumhverfi er heilsa, andleg og líkamleg. Húsasmiðjan leggur áherslu á að hvetja starfsfólk til heilsueflingar með ýmsum hætti og býður upp á ýmiskonar heilsustyrki. Árlega er starfsmönnum boðið upp á bólusetningar gegn inflúensu. Starfsmönnum stendur að auki til boða íþróttastyrkur og samgöngustyrkur. Við hvetjum einnig starfsmenn til heilsueflandi verkefna eins og Lífshlaupið og Hjólað í vinnuna. Fjöldi starfsmanna hjólar daglega til vinnu og síðustu tvö ár sigraði fagmannaverslun Húsasmiðjunnar kílómetrakeppnina í átakinu „Hjólað í vinnuna“. Ávinningurinn getur verið margþættur, til dæmis, bætt líkamleg og andleg heilsa, minni veikindi, færri slys, bætt umhverfi og ánægðari starfsmenn.

Andleg líðan mikilvæg

Húsasmiðjan leggur einnig áherslu á að efla andlega líðan og býður reglulega upp á fyrirlestra og fræðslu tengda andlegri heilsu ásamt því að starfsfólk hefur aðgang þjónustu trúnaðalæknis. Reglulegar vinnustaðagreningar færa okkur mikilvægar upplýsingar til að skilja líðan starfsfólks, og eru niðurstöður nýttar til þess að bæta starfsumhverfið og að hlúa vel að starfsfólki.

Veikindahlutfall

Frá árinu 2019 hefur veikindahlutfall lækkað. Árið 2019 var hlutfallið 6,0% og er nú 4,6%. Árið 2021 voru ekki margir sem veiktust af COVID og það má gera ráð fyrir því að vegna meiri sóttvarna og minni samskipta hafi dregið almennt úr veikindum. Við búumst hins vegar við hækkun árið 2022 þar sem veikindi vegna COVID hafa aukist verulega.

Öryggismál

Hjá Húsasmiðjunni er starfrækt öryggisnefnd sem fjallar um mál er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Á starfsstöðvum okkar eru öryggistrúnaðarmenn, kosnir eru af starfsfólki og/eða öryggisverðir, sem eru stjórnendur á starfsstöð. Í lok ársins 2021 hófst vinna við að yfirfara alla verkferla, öryggismöppur og áhættumat fyrir öll störf hjá fyrirtækinu á öllum okkar starfsstöðvum, með það að markmiði að tryggja betur starfsöryggi starfsfólks og draga enn meira úr hættu á slysum. Gerum við ráð fyrir að ljúka þeirri vinnu haustið 2022. Vinnuslysum hefur einnig fækkað hjá okkur. Árið 2021 var heildarfjöldi áverka og banaslysa sem hlutfall af heildarfjölda starfsmanna 1,3% en var 2,3% árið 2020.

Fjöldi starfsmanna hjólar daglega til vinnu og síðustu tvö ár sigraði fagmannaverslun Húsasmiðjunnar kílómetrakeppnina í átakinu "Hjólað í vinnuna"

Mannréttindi

Húsasmiðjan er með skýra stefnu og viðbragðsáætlun í málum er varða einelti og áreiti á vinnustað. Við viljum að öllum sé ljóst að slík mál eru ekki liðin hjá okkur. Viðbragðsáætlun er aðgengileg í gæðahandbók og á innri vef fyrirtækisins. Áætlunin er einnig kynnt fyrir öllum nýju starfsfólki þegar það hefur störf, ásamt því að hún er kynnt árlega samhliða kynningum á niðurstöðum úr vinnustaðagreiningu. Markmið okkar eru að allt starfsfólk þekki stefnu og viðbragðsáætlun okkar er varðar einelti og áreiti.

Húsasmiðjan leggur einnig áherslu á eflingu andlegrar líðan og býður reglulega upp á fyrirlestra og fræðslu tengda andlegri heilsu

Almennir styrkir

Húsasmiðjan styrkir mikinn fjölda af góðum málefnum á hverju ári. Lögð er rík áhersla á að styrkja íþróttastarf og góð málefni í heimabyggð þar sem verslanir eru staðsettar. Íþróttafélög, ýmis félagasamtök og góðgerðarfélög um land allt hljóta stóra og smáa styrki. Húsasmiðjan hefur einnig styrkt ýmsa starfsemi tengda íþróttafélögunum t.d. félög körfubolta- og handboltadómara. Húsasmiðjan styrkir einnig ýmis verkefni af menningar- legum toga s.s. tónlistar-, myndlistar- og leiklistar- starfssemi. Sem dæmi var myndlistakonan Edda Karólína Ævarsdóttir styrkt um allt efni sem þurfti til að mála hinn sögufræga og stóra FLATUS LIFIR vegg í Kollafirði sem flestir þekkja. Húsasmiðjan jók stuðning sinn verulega við Stóra Plokk- daginn árið 2021 sem haldin er árlega þar sem fólk er hvatt til að fara út og „plokka rusl“ í sínu nærumhverfi eftir veturinn. Sorpgámum fyrir plokkara var m.a. komið fyrir við fjórar verslanir Húsasmiðjunnar í samstarfi við Íslenska gámafélagið auk þess að taka virkan þátt í markaðssetningu á deginum sjálfum.

Viðskiptasiðferði

Húsasmiðjan hefur skýrar siðareglur og aðferðafræði sem kynnt eru nýjum starfsmönnum. Leiðbeiningar og siða- reglur koma fram í gæðahandbók og eru sýnilegar öllum starfsmönnum fyrirtækisins. Jafnframt skrifa allir starfs- menn undir samning um öryggi og trúnað og í gegnum Húsasmiðjuskólann fá starfsmenn kynningu á sam- keppnislögum og reglum. Þá hafa verið innleiddar siðareglur fyrir vörustjóra. Reglur um móttöku reiðufjár hafa einnig verið innleiddar.

Árið 2021 voru sett lög (nr. 40/2020) á Íslandi um vernd uppljóstrara. Lögin gilda um starfsmenn sem greina frá upplýsingum eða miðla gögnum í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda þeirra, hvort sem þeir starfa hjá hinu opinbera eða á einka- markaði. Markmið laganna er að stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig dregið úr slíku hátterni. Húsasmiðjan hefur sett reglur um verklag við uppljóstranir starfsfólks um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi sem aðgengilegar eru í gæðahand- bók Húsasmiðjunnar.