Ávarp forstjóra

Árni Stefánsson

Stór mynd)

Húsasmiðjan er meðal leiðandi fyrirtækja á íslenska byggingavörumarkaðnum en saga félagsins nær allt aftur til ársins 1956.

Fyrirtækið starfrækir 14 Húsasmiðjuverslanir víðsvegar um landið og þjónustar bæði byggingariðnaðinn og einstaklinga. Rúmlega 500 starfsmenn starfa hjá Húsasmiðjunni í um 400
stöðugildum. Húsasmiðjan hefur verið hluti af BYGMA samstæðunni síðan árið 2012. BYGMA er stærsti dreifingaraðili byggingarvara á fagmannamarkaði í Danmörku. Hjá samstæðunni starfa um 2.700 manns í 5 löndum.

Sem virkur þátttakandi í einum af undirstöðuatvinnuvegum landsins hefur Húsasmiðjan fylgst vel með þróun í umhverfismálum í gegnum árin og kynnt margar nýjungar sem tengjast umhverfisvænni lausnum, nýbyggingum og viðhaldi. Áskoranir byggingariðnaðarins og heimsins alls, hvað umhverfismál varðar, vaxa stöðugt. Við leggjum okkur því fram um að draga úr beinu vistspori starfseminnar, ásamt því að stuðla að umhverfisvænni byggingariðnaði á Íslandi.

Hvötum fyrir vistvænum byggingum fer fjölgandi og áhugi fagaðila og almennings á viðfangsefninu hefur aukist verulega á skömmum tíma. Umhverfisvænar byggingar bjóða í mörgum tilvikum upp á heilbrigðara og betra umhverfi sem bætir lífsgæði, ásamt því að hafa sýnt sig að vera betri markaðsvara. Hluti af því að ná árangri í loftslagsmálum felst í því að setja sér markmið og greina reglulega frá árangri. Samfélagsskýrsla er hluti af þeim verkfærum við höfum stuðst við um árabil í þeim efnum. Húsasmiðjan hefur frá árinu 2017 tekið virkan þátt í samfélagsskýrslu Bygma samstæðunnar og birt sérstakt samfélagsuppgjör fyrir starfsemi Húsasmiðjunnar, sérgreinda frá árinu 2020.

Markviss spor til minnkunar umhverfisáhrifa

Húsasmiðjan hefur á undanförnum árum tekið markviss skref í umhverfismálum. Frá árinu 2008 hefur Húsasmiðjan selt Svansvottaða málningu og verið leiðandi í viðhorfsbreytingum á þessu sviði íslenska markaðarins. Fyrirtækið var meðal þeirra fyrstu sem skrifuðu undir loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar í nóvember 2015, og hefur meðal annars unnið brautryðjendastarf í samstarfi við Klappir varðandi þróun og innleiðingu lifandi mælinga á orkunotkun og sorplosun á starfsstöðvum félagsins. Húsasmiðjan var fyrst byggingarvöruverslana til að bjóða upp á rafhleðslustöðvar fyrir bíla árið 2017. Ískraft er í dag meðal leiðandi aðila í sölu á rafhleðslustöðvum bæði til fyrirtækja og einstaklinga, ásamt því að við endurnýjun bifreiða og lyftara hefur verið mörkuð stefna um nýfjárfestingu í umhverfisvænum valkostum og tækjum knúnum raforku. Við byggingu nýrrar verslunar Húsasmiðjunnar á Akureyri árið 2021 var stærstum hluta byggingarefnisins skipað beint út úr stórflutningaskipi við Akureyrarhöfn sem sparaði tugi trukkaferða frá Reykjavík, og lækkaði kolefnisspor framkvæmdarinnar. Húsasmiðjan hefur um árabil nýtt fletaflutninga á byggingarefni með strandflutningaskipum, sem lækkar kolefnisspor við almenna vörudreifingu.

Umhverfisvottað timbur

Umhverfisvottað timbur úr sjálfbærum skógum er meðal helstu söluvara Húsasmiðjunnar. Ásamt því að vera endurnýjanlegt, er timbur tiltölulega létt byggingarefni sem leiðir til minna kolefnisspors við flutninga og byggingu mannvirkja. Við höfum markvisst aukið verulega fjölda umhverfisvottaðra vara, ásamt vörum sem rökstyðja má að séu umhverfisvænni valkostur en aðrar sambærilegar vörur. Í dag telja þær vörur í vöruvali Húsasmiðjunnar og Ískraft vel á fjórða þúsund vörunúmera.

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda á vegum Húsasmiðjunnar á árinu 2021 voru 880 tCO2 ígildi. Húsasmiðjan byrjaði að mæla kolefnisspor sitt árið 2015 og hefur kolefnisjafnað umfang 1 og 2 úr starfseminni síðan 2019. Heildarorkunotkun Húsasmiðjunnar var 21.557.810 kWst á árinu 2021. Þar af var orka frá jarðefnaeldsneyti 1.285.843 kWst, orka frá rafmagni 5.128.633 kWst og orka frá heitu vatni 15.143.335 kWst. Hlutfall endurnýjanlegrar raforku var 94,0% og hlutfall jarðefnaeldsneytis 6,0%.

Samfélags- og umhverfisstefna

Samfélags- og umhverfisstefnan er ein af kjarnastefnum Húsasmiðjunnar. Við hugsum vel um fólkið okkar, umhverfismálin og framtíðina, þetta á allt góða samleið með rekstrarhagnaði. Við keppum stöðugt að því gera okkur og viðskiptavini okkar betur tilbúin fyrir morgundaginn og erum vakandi fyrir tækifærum og nýjungum.

Í ár kemur sjálfbærniskýrsla Húsasmiðjunnar út á mun ítarlegri hátt en áður. Skýrslan er byggð á viðmiðum Global Reporting Inititative (GRI) en það væri ánægjulegt að fá viðbrögð lesenda við því hvort við getum bætt okkur enn frekar á einhvern hátt bæði hvað efnistök eða starfsemi okkar varðar

Umhverfisvænar byggingar sem bjóða í mörgum tilvikum upp á heilbrigðara og betra umhverfi sem bætir lífsgæði ásamt því að hafa sýnt sig að vera betri markaðsvara