Samfélagsleg ábyrgð

Stór mynd)

Samfélagsuppgjör Húsasmiðjunnar fyrir árið 2021

Húsasmiðjan er í samstarfi við Klappir og notast við Environmaster hugbúnaðarlausn þeirra til að fylgjast með helstu umhverfisþáttum fyrirtækisins. Hugbúnaðurinn getur safnað gögnum í rauntíma, varðandi notkun ólíkra þátta, og reiknar út frá því kolefnislosun fyrirtækisins. Þeir þættir sem teknir eru saman eru: Heildarkolefnislosun, rafmagnsnotkun, notkun á heitu og köldu vatni, eldsneytisnotkun og úrgangur, en hann skiptist í flokkaðan, óflokkaðan og óskilgreindan úrgang.

Húsasmiðjan hefur haldið nákvæmt bókhald undanfarin ár um flokkun úrgangs og orkunotkun í öllum deildum, með það að markmiði að gera reksturinn umhverfisvænni og hagkvæmari. Við gerð losunaruppgjörs Húsasmiðjunnar hefur „Operational Control“ aðferðafræðin orðið fyrir valinu. Samkvæmt henni gerir fyrirtækið grein fyrir allri losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim rekstrareiningum sem það stýrir, auk húsnæðis, bifreiða og tækja í rekstri og eigu Húsasmiðjunnar.

Við útreikninga á umhverfisuppgjöri er stuðst við „The Greenhouse Gas Protocol“ sem er stöðluð aðferðafræði, innleidd af fjölda fyrirtækja um allan heim með góðum árangri. Húsasmiðjan leggur áherslu á að loftslagsverkefnið sé unnið innan ramma þeirra innlendu og alþjóðlegu laga og reglugerða sem lúta að umhverfismálum.

• Umfang 1 tekur saman beina losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi fyrirtækis. Í tilfelli Húsasmiðjunnar afmarkast umfang 1 við losun frá bifreiðum og tækjum í eigu eða rekstri Húsasmiðjunnar.

• Umfang 2 tekur saman óbeina losun gróðurhúsalofttegunda sem tengd er raforkunotkun og notkun á heitu vatni. Losun af þessu tagi á sér ekki stað innan marka starfsemi fyrirtækisins og telst því til óbeinnar losunar.

• Umfang 3 tekur saman óbeina losun gróðurhúsalofttegunda í virðiskeðju Húsasmiðjunnar. Sú losun, sem talin er fram í uppgjöri þessu, er losun vegna úrgangs, ásamt því að stefnt er að því að koma inn losun frá flugferðum á vegum fyrirtækisins.

• Greint er frá losun gróðurhúsalofttegunda í tonnum af CO2 ígildum.

Heildarminnkun gróðurhúsalofttegunda 2018-2021 er 156,5 tCO2

Dæmi um árangur á
starfsstöðvum Húsasmiðjunnar

Hér má sjá dæmi um árangur hjá verslunum Húsasmiðjunnar í Borgarnesi og í Reykjanesbæ, í rafmagnsnotkun annars vegar, og úrgangsminnkun og flokkun hins vegar.